Dekkjahöllin samstarfsaðili Chelsea klúbbsins á Íslandi
Dekkjahöllin og stuðningsmannaklúbbur Chelsea á Íslandi skrifuðu undir samstarfssamning í lok síðustu viku. Dekkjahöllin er umboðsaðili Yokohama á Íslandi en Yokohama verður framan á búningum Chelsea FC næstu fimm ár.
Chelsea klúbburinn á Íslandi er meðlimur í klúbbnum í Englandi og því njóta meðlimir Chelsea klúbbsins allra þeirra fríðinda sem enskir meðlimir njóta. Félagar geta keypt miða á leikinn, fá tímarit send heim o.s.frv.
"Ég er ánægður með þetta samstarf okkar og það er einstaklega jákvætt að félagsmenn Chelsea klúbbsins njóta líka góðs af samkomulaginu í formi afsláttar af Yokohama dekkjum. Yokohama er elsti hjólbarðaframleiðandi í Japan og er mjög framarlega í vetrar- og sumardekkjum og hafa dekkin verið að fá mjög góða dóma frá íslenskum neytendum." segir Jóhann Jónsson, markaðsstjóri Dekkjahallarinnar.
Samningurinn var undirritaður á þjónustustöð Dekkjahallarinnar í Skútuvogi 12 en Helgi Rúnar Magnússon varaformaður og Magnús Helgi Jakobsson gjaldkeri undirrituðu samstarfið fyrir hönd Chelsea klúbbsins og handsöluðu svo samkomulagið með Jóhanni Jónssyni markaðsstjóra Dekkjahallarinnar.